Skráning og afhending gagna í Laugardalshöll

Forskráningu á vefnum í Miðnæturhlaup Suzuki 2019 er lokið. Hægt verður að skrá þátttakendur í hlaupið í dag í Laugardalshöll en þangað þurfa skráðir hlauparar einnig að sækja skráningargögn sín. Skráning og afhending gagna hefst kl.16:00 og lokar 45 mínútur fyrir ræsingu hverrar vegalengdar. Hlauparar eru beðnir að mæta tímanlega svo að örugglega náist að afhenda öllum gögn fyrir ræsingu.

Dagskrá

Það verður spennandi dagskrá í Laugardalnum bæði fyrir og eftir hlaupið í kvöld. Inga frá Iceland Power Yoga mun stjórna upphitun fyrir hlaup en ræst verður á eftirfarandi tímum:

Hálfmaraþon - ræst kl.21:00
10 km hlaup - ræst kl.21:00
5 km hlaup - ræst kl.21:20

Að hlaupi loknu fá allir þátttakendur Gatorade og vatn en hálfmaraþon hlauparar fá auk þess súpu frá CuliacanBæjarins beztu pylsur mæta á marksvæðið með vagninn sinn og verða tilbúin með heitar pylsur til sölu fyrir svanga hlaupara. Við mælum því með að allir hafi seðla eða kort í rassvasanum á hlaupabuxunum. Þá mun Iceland Power Yoga bjóða uppá yogaæfingar fyrir þá sem vilja og söngvarinn góðkunni, Eyþór Ingi, verður á svæðinu og grípur í gítarinn.

Þátttakendum er boðið frítt í sund í Laugardalslaug eftir hlaupið. Sýna þarf sundmiða í skráningargögnum til að fá aðgang. Hleypt verður ofan í til kl.00:30 og er hægt að svamla í lauginni og heitu pottunum til kl.01:00. Einnig verður frítt í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn í kvöld klukkan 21:00-00:00. 

Glæsileg verðlaun

Verðlaunaafhending fyrir fyrstu þrjá karla og fyrstu þrjár konur í hverri vegalengd verður á sviðinu fyrir framan Skautahöllina í Laugardal um leið og úrslit liggja fyrir. Suzuki, GÁP, Garmin, Camelbak, Gatorade og Íþróttabandalag Reykjavíkur gefa verðlaunin. Verðlaunapeningur er auk þess veittur fyrir 1. sæti karla og kvenna í mörgum aldursflokkum. Aldursflokkaverðlaun verður hægt að nálgast í Skautahöllinni kl.22:30-00:20 eða á skrifstofu Íþróttabandalags Reykjavíkur frá og með mánudeginum 24. júní klukkan 09:00. Sjá nánar um verðlaun hér.


Afsláttur hjá samstarfsaðilum

Miðnæturhlaup Suzuki á marga góða samstarfsaðila. Þrír þeirra bjóða þátttakendum í hlaupinu afslátt af sínum vörum. Í boði er 25% afsláttur af Camelbak brúsum, drykkjarvestum og öðrum drykkjartengdum vörum, 20% afsláttur af Adidas fatnaði og 15% afsláttur af Garmin æfinga- og heilsuúrum. Tilvalið fyrir þá sem þurfa að græja sig upp fyrir hlaupin í sumar. Sjá nánar á midnaeturhlaup.is.


Tímataka

Í Laugardalshöllinni fá þátttakendur tímatökuflögu og númer. Mikilvægt er að festa flöguna í skóreimarnar því annars fæst enginn tími. Þá er einnig nauðsynlegt að festa hlaupanúmerið framan á sig svo að starfsmenn geti vísað hlaupurum rétta leið. Hægt verður að skoða óstaðfesta tíma þátttakenda á timataka.net stuttu eftir að þeir koma í mark en staðfest úrslit verða birt á midnaeturhlaup.is eigi síðar en kl.02:00.  


Hlaupaleiðir

Allir þátttakendur eru hvattir til að kynna sér vel hlaupaleiðir hér. Hlaupið hefst á Engjavegi fyrir framan Laugardalshöll og endar í trjágöngunum við innganginn í Húsdýra- og fjölskyldugarðinn líkt og undanfarin ár.  Vegna vaxandi fjölda þátttakenda í hlaupinu verður hlaupaleiðin í hálfmaraþoni og 10 km hlaupinu örlítið breytt. Í stað þessa að hlaupa á göngubrú yfir Miklubraut á leið inní Elliðaárdal verður hlaupið á brúnni sem tengir Skeiðarvog og Réttarholtsveg. Síðan verður hlaupið austur Sogaveg, niður Bústaðaveg og þaðan inn í Elliðaárdal. Göngubrúin er síðan notuð á leiðinni til baka en hún  var orðin alltof þröng fyrir þennan mikla fjölda þátttakenda í upphafi hlaups og verður mikill munur að fara þessa nýju leið. 


Töskugeymsla

Í Skautahöllinni í Laugardal stendur þátttakendum til boða að setja töskur í geymslu. Starfsmenn munu vakta töskurnar en engin ábyrgð er tekin á verðmætum. Opið verður í Skautahöllinni frá klukkan 19:00 til 00:20. 


Bílastæði

Hlauparar eru hvattir til að leggja uppi á Suðurlandsbraut því þar verður engin truflun á umferð. Einnig er hægt að leggja við Laugardalshöll en þar verða lokanir að hluta til um kvöldið og því ekki alltaf hægt að keyra að og frá. Þá eru auk þess stæði við Laugardalsvöll, Langholtsskóla og húsnæði KFUM og KFUK við Holtaveg sem tilvalið er að nýta sér. Hér má nálgast upplýsingar um lokanir á götum og truflun á umferð á meðan hlaupið fer fram.


Myndir

Ljósmyndarar frá hlaup.is verða á svæðinu og reyna að ná myndum af sem flestum þátttakendum í hlaupinu. Hægt verður að kaupa myndir á hlaup.is nokkrum dögum eftir hlaup.

Þau sem vilja deila upplifun sinni af hlaupinu með öðrum eru hvött til að merkja myndir á instagram með @midnightrunis og #midnightruniceland. Þrír heppnir myndasmiðir fá 10.000 kr gjafabréf sem hægt er að nota sem greiðslu uppí þátttökugjöld í viðburði á vegum Íþróttabandalags Reykjavíkur sem gildir í þrjú ár.

Gangi ykkur vel og njótið kvöldsins

Tvær konur á hlaupum í miðnætursól

Deila þessari frétt
Samstarfsaðilar
  • Suzuki
  • Adidas
  • Avis
  • Culiacan
  • Garmin
  • Margt Smátt
  • 66 norður
  • ÍTR
  • Bændaferðir
  • Gatorade

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) var stofnað 1944 og eru samtök íþróttafélaganna í Reykjavík. Árlega hefur Íþróttabandalagið umsjón með fimm stórum íþróttaviðburðum. Það eru: Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka í ágúst, Laugavegshlaupið í júlí, Miðnæturhlaup Suzuki í júní, Norðurljósahlaup Orkusölunnar í febrúar og Reykjavíkurleikar í janúar.