Kæru hlauparar, starfsmenn, styrktaraðilar og önnur.
Síðastliðinn fimmtudag, 19. júní var haldið 32. Miðnæturhlaup Suzuki og það má með sanni segja að dagurinn hafi verið frábær í alla staði og meira að segja veðrið lék við okkur.
Við erum þakklát öllum þeim sem hafa tekið þátt í undirbúningi, starfað með okkur og stutt við bakið á okkur til að geta gert viðburðinn að veruleika. Sjálfboðaliðar sem mæta með góða skapið. Þeir starfsmenn sem láta sig aldrei vanta og heyra í okkur af fyrra bragði til að koma og aðstoða okkur við gæslu á braut, uppsetningu og verklag í hverju einasta hlaupi ár eftir ár til að tryggja að allt gangi upp eru ómissandi og okkur svo dýrmætir. Fjölmargir sjálfboðaliðar leggja okkur lið við hlaupið og sinna hinum ýmsu störfum svo að upplifun hlaupara sé sem best. Markmið okkar er að allir geti tekið þátt og sinnt sínu starfi í öruggu og góðu umhverfi.
Við erum einstaklega ánægð með hlaupið í ár, en yfir 2600 hlauparar voru skráðir í hlaupið í ár. Sólin lét heldur betur sjá sig og gæddu þreyttir en glaðir hlauparar sér á hressingu í veðurblíðunni og létu þreytuna líða úr sér í sundlaugarpartýi í Laugardalslauginni að hlaupi loknu.
Þakklæti er okkur efst í huga.
Það sem tekur við núna er endurmat og frágangur. Við hjá ÍBR erum alltaf að reyna að bæta upplifun hlaupara og erum strax farin að huga að næsta ári, en þá hlaupum við saman 25. júní. Við hvetjum öll til að svara viðhorfskönnun hlaupsins svo við getum í sameiningu gert umgjörð og upplifun enn betri að ári.
Kærar þakkir fyrir samveruna í ár og verið dugleg að hlaupa.