Miðnæturhlaup Suzuki 2023 úrslit

23. júní 2023

Miðnæturhlaup Suzuki fagnaði þrjátíu ára afmæli sínu í Laugardal  í gær og því var blásið til veglegrar afmælisveislu. Rúmlega 2300 hlauparar lögðu upp frá Engjavegi, en keppt var í þremur vegalengdum, hálfmaraþoni, tíu kílómetrum og fimm kílómetrum. Hlauparar létu ekki rigninguna stoppa sig enda milt veður framanaf þó að seinna tæki að bæta í vindinn.

Keppendur frá 58 löndum

Af 2307 skráðum þátttakendum voru 800 hlauparar frá 58 mismunandi löndum, flestir frá Bandaríkjunum og svo frá Bretlandi og Þýskalandi. 1315 konur, voru skráðar í hlaupið, 983 karlar, 5 kvár og 2 í ókyngreindum flokki. 

Arnar Pétursson var fljótastur allra karla í hálfmaraþoninu, en hann hljóp á tímanum 01:10:30. Í kvennaflokki var Jenný Harðardóttir fyrst í mark á tímanum 01:29:43. Í tíu kílómetra hlaupinu kom Íris Snorradóttir fyrst í mark í kvennaflokki á tímanum 38:37, en Dusan Krstic kom fyrstur í mark í karlaflokki á tímanum 33:52. Sigurður Ragnarsson var svo allra karla sneggstur í fimm kílómetra hlaupinu á tímanum 15:53. Steinunn Lilja Pétursdóttir var sneggst kvenna, á tímanum 20:11.

Afmæliskaka að loknu hlaupi

Að hlaupi loknu gæddu þátttakendur sér á verðskuldaðri afmælisköku og nutu svo góðs af löngum opnunartíma Laugardalslaugar og fengu drykki í boði Ölgerðarinnar.

Myndir eru eftir Sigfús Steindórsson.

Styrktaraðilar

  • Suzuki
  • 66 norður
  • ÍTR
  • Gatorade