Þjónusta á hlaupdag

Miðnæturhlaup Suzuki 2019 fer fram fimmtudagskvöldið 20.júní. Hér má finna yfirlit yfir þjónustu sem veitt er á hlaupdag.

  
 Tímataka

  Tímataka

  Flögutímataka með tækjum frá Mylaps er í öllum þremur vegalengdum hlaupsins. 

  Festa þarf tímatökuflöguna við skóinn svo að tíminn skráist. Engin flaga = enginn tími. Mikilvægt er að skila tímatökuflögunni þegar komið er í mark til starfsmanna hlaupsins.

  Athugið að tímatökuflagan gildir eingöngu í þetta ákveðna hlaup og hefur hver þátttakandi hana til leigu. Sjá nánar hér.

  
 Verðlaun

  Verðlaun

  Í skráningarferlinu er hægt að velja um að fá afhendan verðlaunapening þegar komið er í mark eða að sleppa því. Verðlaunapeningurinn kostar 500 kr.

  Fyrstu þrír karlar og fyrstu þrjár konur í öllum vegalengdum fá verðlaunapening og gjafir frá samstarfsaðilum hlaupsins á marksvæðinu fljótlega eftir að þeir koma í mark. Einnig eru veitt aldursflokkaverðlaun en þau eru afhent síðar.

  Sjá nánar um verðlaun hér.

  
 Töskugeymsla

  Töskugeymsla

  Í Skautahöllinni í Laugardal stendur þátttakendum til boða að setja töskur í geymslu. Starfsmenn munu vakta töskurnar en engin ábyrgð er tekin á verðmætum. Opið verður í Skautahöllinni frá klukkan 19:00 til 00:20.

  
 Upplýsingar

  Upplýsingar

  Á hlaupdag verður skráning og afhending gagna í Laugardalshöll frá klukkan 16:00 og þar til 30 mínútum fyrir ræsingu hverrar vegalengdar. Á sama stað verður hægt að skoða kort af hlaupaleiðum og fá allar almennar upplýsingar um hlaupið.

  
 Brautargæsla

  Brautargæsla

  Um 150 starfsmenn starfa við brautargæslu á hlaupdag. Þeir sjá um að vísa hlaupurum veginn og stýra umferð. Hlauparar ættu samt sem áður að kynna sér vel hlaupaleiðina hér því starfsmenn eru ekki sjáanlegir á hluta leiðarinnar t.d. á beinum köflum.

  
 Sjúkragæsla

  Sjúkragæsla

  Hjúkrunarfræðingur er til taks í sjúkratjaldi á marksvæði og veitir fyrstu hjálp. Hringt er á sjúkrabíl í neyðartilvikum. Mælt er með því að hlauparar skrifi nafn og símanúmer aðstandanda sem hægt er að hafa samband við í neyð aftan á hlaupanúmerið.

  
 Drykkjarstöðvar

  Drykkjarstöðvar

  Í Miðnæturhlaupi Suzuki eru í heildina fjórar drykkjarstöðvar og eru þær staðsettar á um það bil 5 km fresti. Á öllum drykkjarstöðvunum verður í boði Powerade og vatn. 

  Fyrsta drykkjarstöðin er upp við stíflu í Elliðaárdal eftir um það bil 5 km. Þessi drykkjarstöð er bæði fyrir þátttakendur í hálfmaraþoni og 10 km hlaupi.

  Eftir um það bil 10 km í hálfmaraþoninu er drykkjarstöð við Morgunblaðshöllina við Rauðavatn. Á þessari drykkjarstöð verða í boði bananar auk fyrrnefndra drykkja.

  Í bryggjuhverfinu við Gullinbrú þegar þátttakendur í hálfmaraþoni hafa hlaupið um það bil 15 km er drykkjarstöð.

  Að lokum er drykkjarstöð í markinu þar sem þátttakendur allra vegalengda geta svalað þorstanum en þátttakendur í hálfu maraþoni fá auk þess banana.

  
 Miðnætursund

  Miðnætursund

  Eftir Miðnæturhlaupið er öllum þátttakendum boðið frítt í Laugardalslaugina. En hvað er betra en að svamla í lauginni eða slaka á í pottinum eftir gott hlaup undir miðnætursólinni? 

  Hleypt verður ofan í laugina til kl.00:30 og allir þurfa að fara uppúr eigi síðar en kl.01:00. 

  Framvísa þarf sundmiða sem hlauparar fá afhentan með hlaupagögnum til að fá aðgang að lauginni. 

  Upplýsingar um aðstöðuna í Laugardalslaug má finna á hér á reykjavik.is.

  
 Myndatökur

  Myndatökur

  Ljósmyndarar frá hlaup.is verða á svæðinu og reyna að ná myndum af sem flestum þátttakendum í hlaupinu. Myndirnar verða til sölu á hlaup.is nokkrum dögum eftir hlaup.

  
 Bílastæði

  Bílastæði

  Þátttakendur sem koma keyrandi í Laugardalinn geta lagt við Laugardalshöll þegar þeir sækja skráningargögnin sín. Mælt er með því að leggja við Suðurlandsbraut þegar nær dregur því að hlaupið fari af stað þar sem Engjavegur verður lokaður hluta af kvöldinu.

Samstarfsaðilar

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) var stofnað 1944 og eru samtök íþróttafélaganna í Reykjavík. Árlega hefur Íþróttabandalagið umsjón með sex stórum íþróttaviðburðum: Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka í ágúst, Laugavegshlaupið í júlí, Tour of Reykjavik og Miðnæturhlaup Suzuki í júní, Norðurljósahlaup Orkusölunnar í febrúar og Reykjavíkurleikar í janúar.