Þjónusta á hlaupdag

Miðnæturhlaup Suzuki 2024 fer fram fimmtudagskvöldið 20. júní. Hér má finna yfirlit yfir þjónustu sem veitt er á hlaupdag.

  Tímataka

  Sjálfvirk tímataka er í hlaupinu. Notaður verður tímatökubúnaður sem samanstendur af mottum í rásmarki sem hlauparar fara yfir í byrjun og enda hlaups en tímatökuflagan er innbyggð í hlaupanúmerinu hjá hverjum og einum.

  Verðlaun

  Fyrstu einstaklingar í karla-, kvenna- og kváraflokki í öllum vegalengdum fá verðlaunapening og gjafir frá samstarfsaðilum hlaupsins á marksvæðinu fljótlega eftir að þeir koma í mark. Einnig eru veitt aldursflokkaverðlaun en þau eru afhent síðar.

  Sjá nánar um verðlaun hér.

  Brautargæsla

  Um 100 starfsmenn starfa við brautargæslu á hlaupdag. Þeir sjá um að vísa hlaupurum veginn og stýra umferð. Hlauparar ættu samt sem áður að kynna sér vel hlaupaleiðina hér því starfsmenn eru ekki sjáanlegir á hluta leiðarinnar t.d. á beinum köflum.

  Sjúkragæsla

  Hjúkrunarfræðingur er til taks í sjúkratjaldi á marksvæði og veitir fyrstu hjálp. Hringt er á sjúkrabíl í neyðartilvikum. Mælt er með því að hlauparar skrifi nafn og símanúmer aðstandanda sem hægt er að hafa samband við í neyð aftan á hlaupanúmerið.

  Drykkjarstöðvar

  Í Miðnæturhlaupi Suzuki eru í heildina fjórar drykkjarstöðvar og eru þær staðsettar á um það bil 5 km fresti. Á öllum drykkjarstöðvunum verður í boði Gatorade og vatn. 

  Fyrsta drykkjarstöðin er upp við stíflu í Elliðaárdal eftir um það bil 5 km. Þessi drykkjarstöð er bæði fyrir þátttakendur í hálfmaraþoni og 10 km hlaupi.

  Eftir um það bil 10 km í hálfmaraþoninu er drykkjarstöð við Morgunblaðshöllina við Rauðavatn. Á þessari drykkjarstöð verða í boði bananar auk fyrrnefndra drykkja.

  Í bryggjuhverfinu við Gullinbrú þegar þátttakendur í hálfmaraþoni hafa hlaupið um það bil 15 km er drykkjarstöð.

  Að lokum er drykkjarstöð í markinu þar sem þátttakendur allra vegalengda geta svalað þorstanum en þátttakendur í hálfu maraþoni fá auk þess banana. Smelltu hér til að kynna þér nánar staðsetningar drykkjarstöðvanna.

  Sund

  Eftir Miðnæturhlaupið er öllum þátttakendum boðið frítt í Laugardalslaugina. En hvað er betra en að svamla í lauginni eða slaka á í pottinum eftir gott hlaup undir miðnætursólinni? Hleypt verður ofan í laugina til kl. 00:30 og allir þurfa að fara uppúr eigi síðar en kl. 00:45. 

  Framvísa þarf hlaupanúmeri til að fá aðgang að lauginni. Upplýsingar um aðstöðuna í Laugardalslaug má finna hér á reykjavik.is.

  Óskilamunir

  Eftir hlaupið verður hægt að nálgast óskilamuni alla virka daga á skrifstofu Íþróttabandalags Reykjavíkur á Engjavegi 6, 104 Reykjavík. Óskilamunum verður fargað 2 vikum eftir hlaupdag séu þeir ekki sóttir.

  Salerni

  Færanleg salerni verða við start og marksvæði, einnig á hlaupaleið, sjá nánar hér.

  Myndatökur

  Ljósmyndarar verða á svæðinu og reyna að ná myndum af sem flestum þátttakendum í hlaupinu.

  Töskugeymsla

  Keppendur geta komið fatnaði og öðru dóti fyrir í geymslu í Skautahöllinni. Starfsfólk vaktar geymsluna en þó er engin ábyrgð tekin á fjármunum sem þar eru geymdir. Opnunartími töskugeymslu er frá kl. 19:30-00:00.

Styrktaraðilar

 • Suzuki
 • 66 norður
 • ÍTR
 • Gatorade